Viðskipti erlent

Sölu á LaSalle hafnað

LaSalle-bankinn í Bandaríkjunum.
LaSalle-bankinn í Bandaríkjunum. Mynd/AFP

ABN Amro Holding NV, rekstrarfélag eins stærsta banka Hollands, hafnaði í dag yfirtökutilboði þriggja banka í Evrópu í LaSalle, banka í eigu ABN Amro í Bandaríkjunum. Tilboðið hljóðaði upp á 24,5 milljarða dali, jafnvirði 1.557 milljarða íslenskra króna.

Í kauptilboði breska bankans Barclays á ABN Amro var skilyrði um sölu á LaSalle til Bank of America, sem bauð 21 milljarða dala, 1.335 milljarða króna, í starfsemina í vesturheimi.

Ekki liggur fyrir hver framtíðin um baráttuna um ABN Amro verður en evrópski bankahópurinn, sem samanstendur af Royal Bank of Scotland, belgíska bankanum Fortis og hinum spænska Santander, bauð um helgina 96,4 milljarða dali, 6.163 milljarða íslenskra króna, fyrir allan bankann, þar með talið var LaSalle. Barclays bauð hins vegar 90 milljarða dali, jafnvirði 5.754 milljarða íslenskra króna, en gegn því að LaSalle yrði seldur.

Baráttan um hollenska bankann hefur keyrt upp gengi bréfa í honum en það hefur hækkað um 47 prósent það sem af er ári og stendur nú í 35,90 evrum á hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×