Viðskipti erlent

Dell segir upp 7.000 manns

Michael Dell, stofnandi og forstjóri Dell.
Michael Dell, stofnandi og forstjóri Dell. Mynd/AFP
Bandaríski tölvuframleiðandinn Dell hefur ákveðið að segja upp allt að 7.000 manns á heimsvísu í hagræðingarskyni. Þetta jafngildir því að 10 prósentum af starfsliði fyrirtækisins fær uppsagnarbréf á næstunni. Þrátt fyrir þetta batnaði hagnaður fyrirtækisins á fyrsta fjórðungi ársins.

Hjá Dell starfa 78.700 manns um allan heim.

Dell hefur átt við rekstrarvanda að stríða upp á síðkastið, meðal annars vegna dræmrar tölvusölu og harðnandi samkeppni. Afkoma fyrirtækisins hefur verið undir væntingum og ákvað Michael Dell, stofnandi fyrirtækisins, að taka við forstjórastólnum á ný fyrr á árinu í von um að snúa rekstrinum til betri vegar. Hann segir uppsagnirnar erfiða ákvörðun en nauðsynlega eigi að takast að bæta gengi fyrirtækisins.

Á sama tíma og Dell greindi frá uppsögnum hjá fyrirtækinu voru afkomutölur fyrirtækisins á fyrsta fjórðungi kunngjörðar. Hagnaðurinn batnaði talsvert á milli ára, nam nú 947 milljónum dala, jafnvirði 58,4 milljörðum íslenskra króna, samanborið við 762 milljónir dala, 47 milljarða íslenskra króna, á sama tíma í fyrra.

Þá nam salan 14,6 milljörðum dala á fjórðungnum, sem er eins prósents aukning á milli ára.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×