Erlent

Olmert tilbúinn til þess að skila Golan hæðum

Óli Tynes skrifar
Horft í norður til Golan hæða.
Horft í norður til Golan hæða.

Hægri menn í Ísrael eru sjóðandi reiðir yfir fréttum um að Ehud Olmert forsætisráðherra hafi sagt Sýrlendingum að hann sé reiðubúinn að skila þeim Golan hæðum. Ísraelar hertóku hæðirnar í sex daga stríðinu árið 1967. Olmert setur þau skilyrði að Sýrlendingar slíti öll tengsl við Íran og Hisbolla og hætt stuðningi við hryðjuverkamenn. Og geri friðarsamning við Ísrael.

Ísrael er agnarlítið land aðeins einn fimmti hluti af stærð Íslands. Það hefur enga herfræðilega dýpt. Golan hæðirnar eru í norðurhluta landsins og landshættir þannig að ef sýrlenskt herlið réðist þaðan inn í Ísrael væri það strax á fyrstu kílómetrunum komið inn í þétta ísraelska byggð.

Ísraelar hafa því allt frá stofnun ríkisins verið sannfærðir um að Golan hæðir væru nauðsynlegar til þess að tryggja öryggi landsins. Undanfarin ár hafa þeir þó verið að gera sér grein fyrir því að enginn friður næst nema hæðunum verði skilað. Viðræður þar um við Sýrlendinga hafa þó alltaf runnið út í sandinn.

Ísraelska blaðið Yediot segir að George Bush hafi gefið Olmert grænt ljós á samningaviðræður við Sýrlendinga, í klukkustundarlöngu símtali í síðasta mánuði. Ísraelska útvarpið hefur eftir háttsettum embættismanni að ekki megi tala um samningaviðræðurnar við Sýrland, en Ísrael sé reiðubúið að greiða það verð sem þurfi fyrir frið.

Forsætisráðuneytið vill hvorki játa þessum fréttum né neita, að sögn dagblaðsins Jerusalem Post.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×