Erlent

Vit­orðs­maður viður­kennir að hafa gert það sama og Pelicot

Jón Þór Stefánsson skrifar
Patrick Gontard, lögmaður Jean-Pierre Marechal.
Patrick Gontard, lögmaður Jean-Pierre Marechal. EPA

Vitorðsmaður Dominique Pelicot, sem er ákærður fyrir að byrla eiginkonu sinni Gisele ólyfjan og fá tugi manna til að nauðga henni ítrekað á tíu ára tímabili, sagði fyrir dómi í Frakklandi í dag að hann hefði einnig byrlað konu sinni og fengið menn til að nauðga henni.

Jean-Pierre Marechal heitir þessi vitorðsmaður, en hann vildi meina Pelicot hefði vakið upp djöful innra með sér og sannfært hann um að brjóta líka á sinni eiginkonu.

„Ég sé eftir þessu. Ég elska eiginkonu mína,“ sagði Marechal. „Ef ég hefði ekki hitt herra Pelicot hefði ég aldrei framið þessi brot. Hann var sannfærandi, líkt og hann væri frændi minn.“

France 24 fjallar um málið. Saksóknarar segja Marechal og Pelicot hafa kynnst á spjallborði á netinu þar sem sá síðarnefndi hafi deilt myndum sem sýndu misnotkun á eiginkonu sinni.

Marechal sagði að hann hefði fundið umrædda vefsíðu fyrir tilviljun. Í fyrstu hafi Marechal neitað Pelicot ósk hans um að fá að nauðga konu sinni. Að sögn saksóknara sá Pelicot um það að byrla eiginkonu Marechals. Hann hafi síðan nauðgað henni á meðan Marechal horfði á.

Marechal sagði einnig að faðir hans hefði misnotað hann og systur hans. Þess má geta að Marechal er ekki ákærður fyrir að nauðga Gisele.

Í gær bar Pelicot vitni fyrir dómi þar sem hann játaði sök og bað um fyrirgefningu. Hann sagðist óska þess að hann og eiginkona hans Gisele, sem hefur sótt um skilnað, myndu taka aftur saman. Eiginkona Marechals hefur ekki sótt um skilnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×