Erlent

Danstilskipun til að draga úr offitu

Óli Tynes skrifar
Þessum unga manni veitti ekki af að taka nokkur dansspor.
Þessum unga manni veitti ekki af að taka nokkur dansspor.
Kínverska menntamálaráðuneytið hefur upplýst að það hyggist láta skólabörn landsins læra að dansa, til þess að draga úr offitu. Gagnfræðaskólakrökkum verður til dæmis skipað að læra vals. Kínverjar hafa alltaf stært sig af því að vera grennri en vesturlandabúar. Það hefur hinsvegar breyst með aukinni velmegun og vestrænum skyndbitastöðum.

Danstímarnir eiga að vera viðbót við aðra leikfimi sem kennd er í skólum. Vals er annars furðulega vinsæll í Kína. Hópar fólks safnast oft saman úti undir beru lofti á sumarkvöldum og æfa sig við tónlist úr geislaspilurum.

Vitað er að Hu Jintao forseti var í sveit samkvæmisdansara á háskólaárum sínum fyrir menningarbyltinguna. Sú staðreynd var hinsvegar fjarlægð úr ferilskrá hans eftir að hann tók við embættinu. Ekki er vitað hvort hann átti þátt í þeirri ákvörðun að láta börn Kína læra að dansa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×