Erlent

Sósíalistar hvattir til að kjósa

Guðjón Helgason skrifar

Sósíalistar hvetja stuðningsmenn sína til að fjölmenna á kjörstað í seinni umferð þingkosninganna í Frakklandi um næstu helgi. Nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að UNP flokkur Sarkozys Frakklandsforseta fái jafn afgerandi meirihluta á þingi og niðurstaða fyrri umferðar í gær bendi til.

Seinni umferð kosninganna fer fram næsta sunnudag og verður þá kosið aftur í þeim kjördæmum þar sem enginn frambjóðandi fékk hreinan meirihluta og berjast þá þeir sem fengu meira en 12% atkvæða.

Fyrir kosningarnar í gær var UMP flokkur Sarkozys, Frakklandsforseta, með 359 þingsæti og því meirihluta í neðrideildinni þar sem 577 sæti eru í boði. Gangi úrslit gærdagsins eftir verða mið- og hægrimenn með að minnsta kosti 383 þingsæti en í mesta lagi 501.

Aðeins 110 þingmenn náðu kjöri í gær og aðeins einn þeirra sósíalisti. Segolene Royal, frambjóðandi þeirra í forsetakosningunum í vor, hvatti alla þá 17 millljón kjósendur sem greiddu henni atkvæði til að kjósa í seinni umferðinni. Koma þyrfti í veg fyrir stórsigur hægrimanna.

Fari eins og allt bendir til um næstu helgi fær Sarkozy umboð kjósenda til að hrinda í framkvæmd ýmsum róttækum breytingum á frönsku samfélagi. Hann vill lækka skatta og breyta vinnulöggjöf þannig að fyrirtækjum reynist auðveldara að reka og ráða fólk. Þá vill hann minnka vald verkalýðsfélaga þannig að áhrif verkfalla á ýmsa þjónustu - svo sem samgöngur - verði minni. Hann vill einnig herða refsingar fyrir síbrotamenn, harðari innflytjendalöggjöf og veita háskólum aukið sjálfsforræði til ýmissa verka.

Kjörsókn í gær var rétt rúm 60% en 84% í forsetakosningunum í síðasta mánuði. Ekki fyrr hafa jafn fáir kosið í fyrstu umferð þingkosninga í Frakklandi. Spennandi verður að sjá hve margir nýta rétt sinn á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×