Viðskipti erlent

Ebay slítur viðskiptum við Google

Stjórnendur bandaríska uppboðsvefjarins Ebay hafa ákveðið að hætta að auglýsa þjónustu sína á leitarvél Google. Ástæðan er óánægja með ákvörðun Google að fagna nýju netgreiðslukerfi fyrirtækisins á sama tíma og Ebay hélt árlega viðskiptaráðstefnu sína þar sem Google.

Stjórnendur Ebay segja að með aðgerðum sínum hafi Google verið að beina sjónum frá netviðskiptakerfinu PayPal, sem Ebay á, til að auglýsa sambærilega þjónustu Google.

Ebay er stór auglýsandi hjá Google og greiðir 25 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði rétt tæpra 1,6 milljarða íslenskra króna, fyrir auglýsingarnar á ári hverju.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir ráðgjafa hjá markaðsfyrirtæki að þetta hafi verið röng ákvörðun hjá Google.

Greinendur telja þó líkur á að Ebay muni draga í land og endurnýja viðskipti sín við Google enda hafi samstarfið skilað góðum árangri fram til þessa.

Auglýsingar Ebay hjá Google felast í svokallaðri AdWord-leit þar sem leitarvélin skilar niðurstöðum eftir leitarorðum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×