Erlent

Viðræður um framtíð Vestur-Sahara hefjast í dag

Frá mótmælum á Spáni þann 21. apríl síðastliðinn en þá kröfðust mótmælendur sjálfstæðis Vestur-Sahara.
Frá mótmælum á Spáni þann 21. apríl síðastliðinn en þá kröfðust mótmælendur sjálfstæðis Vestur-Sahara. MYND/AFP

Stjórnvöld í Marokkó og uppreisnarmenn í Polisario, sem berjast fyrir sjálfstæði Vestur-Sahara, hefja viðræður um framtíð svæðisins í dag. Upphaflega var Vestur-Sahara nýlenda Spánverja.

Árið 1957 kröfðust stjórnvöld í Marokkó svæðisins. Spánverjar fóru á brott á árunum 1975-76 og hertók Marokkó þá Vestur-Sahara. Hófust þá átökin við Polisario en þau entust fram á miðan tíunda áratug síðustu aldar. Polisario hefur haldið úti ríkisstjórn í útlegð með aðsetur í Alsír síðan 1976. Fleiri en 70 þjóðir hafa viðurkennt þá stjórn sem réttmæt stjórnvöld í Vestur-Sahara.

Búist er við því að stjórnvöld í Marokkó muni bjóða Polisario að Vestur-Sahara verði sjálfsstjórnarsvæði innan Marokkó en þeirri hugmynd hafa samtökin hafnað hingað til. Ekki er búist við miklum framförum á fundunum í vikunni en engu að síður er litið á viðræðurnar sem fyrsta skrefið í átt að sátt um framtíð svæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×