Erlent

Riddaratign Rushdies mótmælt víða um heim

Jónas Haraldsson skrifar

Íranar og Pakistanar hafa formlega mótmælt ákvörðun Breta að aðla rithöfundinn Salman Rushdie. Íranska utanríkisráðuneytið kallaði sendiherra Bretlands í Tehran á sinn fund í gærkvöldi og sagði öðlun Rushdies, sem skrifaði bókina Söngvar Satans, ögrun við Írana.

Pakistanar mótmæltu einnig og sögðu þetta sýna fram á algert skeytingarleysi Breta gagnvart múslimum. Þeir kölluðu sendiherra Bretlands á sinn fund og báru fram formleg mótmæli. Þá sagði ráðherra trúarmála í Pakistan sagt að aðalstignin gæti réttlætt sjálfsmorðsárásir gegn breskum þegnum. Hann útskýrði síðar yfirlýsingu sína og sagði öfgatrúarmenn geta réttlætt árásir á þennan hátt.

Þá hafa fjölmenn mótmæli orðið í Malasíu í morgun vegna riddaratignar Rushdie. Samkvæmt fréttum í Bretlandi hefur hann farið með veggjum eftir veitingu hennar og lítið viljað tjá sig um málið í fjölmiðlum.

Bretar neituðu því að öðlunin hefði átt að móðga Íslam eða múslima.

Mikil mótmæli urðu í löndunum tveimur þegar bókin Söngvar Satans kom út. Khomeini, fyrrum æðstiklerkur Írana, gaf þá út dauðadóm á hendur Rushdie. Fór hann í felur í framhaldi af því og sneri ekki aftur fyrr en 1998 þegar íranska ríkisstjórnin sagði að dómurinn væri fallinn úr gildi.

Í bók sinni Söngvar Satans segir Rushdie frá baráttu góðs og ills og sameinar skáldskap, heimspeki og farsa. Múslimar mótmæltu samstundis þar sem þeir sögðu Rushdie hafa framið guðlast með lýsingu sinni á spámanninum Múhammad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×