Innlent

Búið að taka sýni úr ungu birnunni

Lovísa Arnardóttir og Bjarki Sigurðsson skrifa
Birnan verður sett í frost þar til hægt verður að stoppa hana upp. 
Birnan verður sett í frost þar til hægt verður að stoppa hana upp.  Vísir/Vilhelm

Búið er að taka ýmis sýni úr hvítabirninum sem var felldur í gær. Næst á dagskrá er að greina sýnin til að komast að því hvort hann hafi borið með sér einhverja sjúkdóma og til að komast að því af hvaða stofni hann var. Hvítabjörninn var kvendýr og var um 163 sentímetrar að lengd.

„Það tekur einhvern tíma að fá niðurstöðu úr því,“ segir Þorvaldur Þór Björnsson hamskeri hjá Náttúrufræðistofnun. Sýnin voru tekin úr birnunni á rannsóknarstofu Hafrannsóknarstofnunar í Hafnarfirði. 

Birnan verður svo sett í frost til hægt verður að stoppa hana upp. Hún var að öllum líkindum á öðru eða þriðja ári og var um 150 til 200 kíló. Birnan var felld við Höfðaströnd í Jökulfjörðum í gær eftir að kona á níræðisaldri varð hennar vör og lét vita af henni.

Yfirvöld á Grænlandi vildu ekki taka við birnunni aftur. Því þurfti að fella hana. Vísir/Vilhelm

Í viðtali við Vísi fyrr í dag sagði Þorvaldur það mikla heppni að konan hafi orðið hennar vör.

„Um leið og þeir sáu hann á björgunarbátnum þá rauk hann beint í þá, að bátnum í fjörunni. Því hann var ánægður að sjá lífsmark og að hann gæti fengið bita. Þetta hefði getað farið þannig að við myndum ekki enn vita birninum, ef konan hefði mætt honum utandyra. Þá værum við einni konu færri.“


Tengdar fréttir

Húnninn settur í frost þar til hægt verður að stoppa hann upp

Tekin verða sýni úr hvítabirninum sem var felldur í gær og hann svo settur í frost þar til hægt verður að stoppa hann upp. Þorvaldur Þór Björnsson hamskeri hjá Náttúrufræðistofnun segir miður að það hafi ekki verið hægt að halda dýrinu lifandi en það hafi ekkert annað verið í stöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×