Erlent

Talibanar beina augunum að Kabúl

Jónas Haraldsson skrifar
Tyrkneskar hersveitir ganga um götur í Kabúl.
Tyrkneskar hersveitir ganga um götur í Kabúl. MYND/AFP
Talibanar í Afganistan eru að breyta um aðferðir og ætla að einbeita sér að Kabúl á næstunni. Talsmaður talibana skýrði fréttastofu BBC frá þessu í nótt. Hann tók fram að NATO hefði náð að bana nokkrum leiðtogum þeirra en nú væru þeir að herða öryggisaðgerðir og fleiri en nokkru sinni byðu sig fram í sjálfsmorðsárásir.

Til merkis um það var gerð árás á lögreglurútu í Kabúl á sunnudaginn var þar sem að minnsta kosti 24 létu lífið. Það var mannskæðasta árásin í Kabúl síðan 2001.

Ástæðuna fyrir breyttum aðferðum sagði talsmaðurinn vera að í Kabúl væru flestir erlendir hermenn. Takmark talibana væri sjálfstætt og frjálst Afganistan og þá sagði hann að þeir myndu nota sömu aðferðir og uppreisnarmenn í Írak nota nú.

Varnarmálaráðherra Afganistan segir hins vegar að stuðningur við talibana í Afganistan fari þverrandi. Því til stuðnings bendir hann á að hin mikla vorsókn, sem talibanar lofuðu, hefur aldrei orðið. Engu að síður er barist harkalega í suðurhluta landsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×