Erlent

Rice segir heiminn hafa brugðist íbúum Darfúr

Jónas Haraldsson. skrifar
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í nótt að heimurinn hefði brugðist íbúum Darfúr.

Rice lét ummæli sín falla fyrir væntanlega ráðstefnu í París þar sem fjallað verður um málefni Darfúr. Fulltrúar Bandaríkjanna, Frakka, Kínverja og Egypta munu sitja ráðstefnuna. Fleiri en 200 þúsund hafa látið lífið í átökunum á svæðinu og næstum tvær og hálf milljón hefur þurft að flýja heimili sín vegna þeirra.

Átökin standa á milli uppreisnarmanna í Darfúr og vígasveita sem stjórnvöld styrkja. Uppreisnarmenn eru svartir Afríkubúar en vígasveitirnar samanstanda af arabískum uppruna. Barist hefur verið síðan árið 2003 en það var ekki fyrr en fyrir tveimur árum síðan að farið var að tala um þjóðarmorð.

Nýverið samþykktu stjórnvöld í Súdan að hleypa nær 20 þúsund manna sameiginlegu friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna og Afríkubandalagsins inn í landið. Engu að síður er enn óttast að forseti Súdan, Omar al-Bashir eigi eftir að skipta um skoðun og neita að hleypa friðargæsluliðunum inn í landið.

Þrátt fyrir að umheimurinn hafi í tvö ár sagt ástandið í Darfúr þjóðarmorð hefur lítið verið aðhafst í málum svæðisins. Hingað til hefur aðeins sjö þúsund manna lið Afríkubandalagsins verið í Darfúr. Sá fjöldi hefur ekki dugað til þess að binda endi á átökin eða vernda það fólk sem enn er á svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×