Erlent

Réttargeðlæknar í Svíþjóð óttast sjúklinga sem hafa í hótunum

Réttargeðlæknar í Sundsvall í Svíþjóð hafa gefið út yfirlýsingu um að þeir ætli að hætta að leggja mat á ástand hættulegra sjúklinga, sem haldnir eru ofsóknarhugsunum eða hafa í hótunum, undir eigin nafni. Yfirlýsingin kemur í kjölfar þess að geðveikur maður er grunaður um að hafa skotið lögreglumann í Nyköping í Svíþjóð til bana. Hann særði einnig tvo aðra þegar lögreglumennirnir hugðust færa hann nauðugan í geðlæknisskoðun. Morðið átti sér stað 20. júní síðastliðinn.

Maðurinn hefur undanfarin sjö ár ítrekað haft í hótunum við geðlækna og heilbrigðisstarfsfólk. Læknar hafa upplýst að þeir hafi gefið það út að hann væri frískur þvert á eigin sannfæringu til að forðast það að lenda á dauðalista mannsins.

Í framtíðinni munu sérstakar réttargeðdeildir bera ábyrgð á því að leggja mat á hættulega einstaklinga. Öryggi innan almenna kerfisins dugir ekki til að vernda einstaka starfsmenn, að því er fram kemur í Dagens nyheter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×