Erlent

Reykingabann tekur gildi á Englandi

Guðjón Helgason skrifar

Reykingabann á opinberum stöðum tekur gildi á Englandi á miðnætti og þar með gildir bann á öllum Bretlandseyjum. Bannað verður að reykja á knæpum og engar undanþágur veittar. Segja margir það ósanngjarnt gagnvart þeim sem reka sérstakar vindla- og vatnspípukrár.

Bann tók gildi í Skotlandi í mars í fyrra og á Norður-Írlandi og í Wales í apríl síðastliðnum. Sérfróðir segja bannið hafa slæm áhrif á breska menningu sem og fjölþjóðlega víða á Bretlandseyjum. Bannið taki einnig til staða þar sem gert sé út á þjónustu við reykingafólk - þar á meðal eru sérstakar knæpur fyrir vindlareykingamenn.

Randal Macdonald, eigandi knæpu þar sem vindlareykingar eru í hávegum hafðar, segir réttast að veita undanþágur líkt og á Spáni og Ítalíu, það hafi verið lagt til í Frakklandi og New York sem og víðar í Bandaríkjunum. Þar geti reykingamenn reykt í herbergjum sem starfsfólk komi ekki inn í. Ekki gangi að reka fólk út, sérstaklega ekki vindlareykingamenn. Það sé óvirðing við reykingafólk og valdi almenningi óþægindum. Macdonald segir reykingahefðir Englendinga í hættu vegna bannsins.

Knæpur sem bjóða upp á vatnspípureykingar eru einnig í hættu. Ibrahim El-Nour rekur knæpu sem býður upp á vatnspípur. Hann segir þær mikinn hluta af menningu araba og helstu tekjulind staðarins. Verði ekki veitt undanþága fari staðir sem þessir á hausinn en þeir hafi verið helsti viðkomustaður ungs fólks.

Ekki er þó allir ósáttir við bannið og benda á kosti þess. Martin Dockell, baráttumaður gegn reykingum, bendir á að hver megi gera það sem hann vilji við eigin líkama en ekki við líkama annarra og það skipti mestu í þessu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×