Erlent

130 manns hið minnsta féllu

Guðjón Helgason skrifar

Að minnst kosti 130 manns féllu og 240 særðust í sjálfsvígssprengjuárás í Amirli í Norður-Írak í gær. Árásin eru sú mannskæðasta í Írak í 3 mánuði.

Vöruflutningabíll hlaðinn sprengiefni sprakk á fjölförnu markaðstorgi í borginni í gær. 20 íbúðarhús í borginni hrundu til grunna í árásinni og 20 til viðbótar skemmdust mikið. 50 verslunarhús nærri markaðnum skemmdust. Talið er að margir liggi enn í rúsunum látnir eða illa særðir en 20 hið minnsta er enn saknað.

Bærin Amirli er afskekktur og því þurfti að flytja særða um langan veg til aðhlynningar á sjúkrahúsum í stærri borgum, þar á meðal Kirkuk. Margir dóu á leið til lækna.

Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, segir árásina í gær svívirðilegan glæp sem verði refsað harðlega fyrir. Hann segir andspyrnumenn ábyrga og árásina merki um vonleysi þeirra. Talsmaður Bandaríkjahers óttast fleiri árásir sem þessa á næstu vikum og þær verði líkast til verk öfgasinnaðra súnníta. Hann segir margt benda til þess að einhverjir úr þeirra röðum hafi skipulagt og framkvæmt árásina í gær.

Íbúar í Amirli og Tuz Khurmato í Norður-Írak eru af ýmsum þjóðarbrotum. Kirkuk sem er í nágrenninum liggur utan við yfirráðasvæði Kúrda í norðri en Kúrdar telja Kirkuk höfuðborg sína. Þjóðaratkvæðagreiðsla um stöðu Kirkuk héraðs verður haldin fyrir lok ársins.

Fleiri mannskæðar árásir hafa verið gerðar í Írak í morgun. 23 borgarar hið minnsta féllu og 27 særðust þegar árás var gerð á skrifstofu hersins austur af Falluja þar sem fjölmargir voru komnir til að skrá sig í herinn. Fregnir hafa einnig borist af því að 2 hið minnsta hafi fallið í sprengjuárás nærri skráningarstöð hersins í bænum Kharma, sem er skammt frá Falluja. Í höfuðborginni, Bagdad, voru 2 sprengjuárásir gerðar í morgun en engar fréttir hafa enn borist af mannfalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×