Erlent

Ísraelar og Palestínumenn funda

Jónas Haraldsson skrifar
Utanríkisráðherra Palestínu, Salam Fayyad.
Utanríkisráðherra Palestínu, Salam Fayyad. MYND/AFP
Utanríkisráðherrar Ísraels og Palestínu funduðu í gær. Fundurinn var sá fyrsti síðan ný ríkisstjórn var skipuð í Palestínu. Viðræðurnar fóru fram í Jerúsalem en almennt er álitið að þeim hafi verið ætlað að sýna stuðning við hina nýju ríkisstjórn.

Á sama tíma var sagt að sendinefnd frá Arababandalaginu myndi fara til Ísrael síðar í vikunni. Það yrði í fyrsta sinn sem slíkt ætti sér stað. Í heimsókninni á að ræða um hugsanlega friðaráætlun sem bandalagið hefur sett fram.

Þá hafa stjórnvöld í Ísrael ákveðið að sleppa 250 palestínskum föngum úr haldi. Fréttaskýrendur segja það vera enn aðra tilraun til þess að styrkja stjórn Abbas en alþjóðasamfélagið hefur keppst um að viðurkenna stjórn hans sem einu réttmætu stjórn Palestínu.

Fatah hreyfingin sem Abbas leiðir deildi áður völdum með Hamas samtökunum. Eftir að þeir síðarnefndu rændu völdum fyrir tæpum mánuði síðan sleit Abbas samstarfinu við Hamas og myndaði nýju ríkisstjórnina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×