Viðskipti innlent

6 konur af 90 tekjuhæstu Íslendingunum

Af níutíu hæstu skattgreiðendum landsins eru aðeins sex konur. Ein þeirra ber höfuð og herðar yfir aðrar - Ingunn Gyða Wernersdóttir er skattadrottning landsins og greiðir tæpar 290 milljónir í opinber gjöld.

Þetta þýðir að 93 prósent af tekjuhæstu einstaklingum þjóðarinnar á síðasta ári voru karlmenn. Níu skattaumdæmi eru í landinu. Enginn kona kemst á lista yfir tíu hæstu greiðendur opinberra gjalda í fimm skattaumdæmum. Skattadrottningin Ingunn Gyða Wernersdóttir greiðir tæpar 288 milljónir króna í opinber gjöld og þar með þriðju hæstu skattana á landinu öllu. Ingunn er á fimmtugsaldri, menntaður hjúkrunarfræðingur og starfaði lengi sem slíkur, næstyngst fimm barna Werners Rasmussonar apótekara sem var lengi framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Pharmaco, síðar einn af stofnendum Delta. Í síðasta hefti Frjálsrar verslunar kemur fram að hún byggði upp veldi Milestone ásamt tveimur bræðrum sínum en seldi hlut sinn nýlega og einbeitir sér að eigin fjárfestingum. Ingunn komst raunar í fréttirnar fyrir skömmu þegar hún og bræður hennar keyptu Galtalækjarskóg.

Í öðru sæti er Anna Fríða Winther sem er skráð á Seltjarnarnesi og greiðir tæpar 48 milljónir í gjöld.

Þá eru þrjár konur á lista yfir tíu hæstu greiðendur gjalda á Austurlandi, þær Hrefna Lúðvíksdóttir, Pálína Haraldsdóttir og Hrönn Pétursdóttir. Eina konan sem hins vegar trónir á toppi listans yfir hæstu greiðendur í sínu skattaumdæmi er Ingibjörg Kristjánsdóttir landslagsarkitekt í Eyja- og Miklaholtshreppi. Ingibjörg er eiginkona Ólafs Ólafssonar stjórnarformanns Samskipa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×