Viðskipti erlent

Kauphallarfulltrúar ræða málin

Robert Greifeld, forstjóri Nasdaq-hlutabréfamarkaðarins. Hann hvetur hluthafa í OMX-samstæðunni til að halda að sér höndum.
Robert Greifeld, forstjóri Nasdaq-hlutabréfamarkaðarins. Hann hvetur hluthafa í OMX-samstæðunni til að halda að sér höndum. Mynd/AFP

Fulltrúar norrænu kauphallarsamstæðunnar OMX og kauphallarinnar í Dubai ætla að funda í dag og ræða um hugsanlegt tilboð hinna síðastnefndu í meirihluta bréfa í OMX. Fréttastofa Associated Press segir geta stefnt í yfirtökubaráttu á milli kauphallarinnar í Dubai og bandaríska hlutabréfamarkaðarins Nasdaq um OMX.

Nasdaq lagði fram yfirtökutilboð í OMX-samstæðuna í maí síðastliðnum og hefur stjórn OMX mælt með því.

Kauphöllin í Dubai greindi frá því á fimmtudag að hún hefði keypt 4,9 prósenta hlut í OMX-samstæðunni á 230 sænskar krónur á hlut og hefði aukinheldur tryggt sér kauprétt á allt að 27,4 prósentum á sama verði.

Heidi Wendt, talsmaður OMX-samstæðunnar, vildi ekki tjá sig um efni fundar forsvarsmannanna í samtali við Associated Press, sem hefur eftir stjórn OMX að ekkert liggi fyrir um næstu skref kauphallarinnar í Dubai þar eð einungis hafi borist yfirtökutilboð frá Nasdaq.

Stjórn Nasdaq hefur hins vegar hvatt hluthafa OMX-samstæðunnar til að halda að sér höndum, að sögn Associated Press.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×