Viðskipti erlent

Buffett sér kauptækifæri á fasteignalánamarkaðnum

Warren Buffett. Hér ræðir hann við félaga sinn Bill Gates, annan af tveimur stofnendum hugbúnaðarrisans Microsoft.
Warren Buffett. Hér ræðir hann við félaga sinn Bill Gates, annan af tveimur stofnendum hugbúnaðarrisans Microsoft. Mynd/AFP

Bandaríska viðskiptadagblaðið Wall Street Journal leiðir að því líkum í dag að auðkýfingurinn aldni Warren Buffett sé líklegur til að kaupa hluta af fasteignalánastarfsemi bandaríska fjármálafyrirtækisins Countrywide Financial. Fyrirtækið hefur átt við verulega fjárhagsörðugleika að stríða vegna samdráttar á bandarískum fasteignalánamarkaði og hefur verið rætt um yfirvofandi gjaldþrot þess.

Blaðið segir fasteignalánahluta fyrirtækisins geta heillað Buffett en hann hefur fjárfest nokkuð í fjármálafyrirtækjum upp á síðkastið, ekki síst í þeim sem hafa lent í erfiðleikum vegna samdráttar á fasteignalánamarkaði. Þar á meðal hefur fjárfestingafélag hans, Bershire Hathaway, keypt hluti í Bank of America, einum af sex stærstu fasteignalánafyrirtækjum Bandaríkjanna.

Buffett sagði í samtali við sjónvarpsstöðina CNBC á dögunum að mörg kauptækifæri hefðu skapast í hræringunum á fjármálamörkuðum upp á síðkastið.

Countrywide hefur átt við mikla erfiðleika að etja upp á síðkastið og þurfti nýverið að nýta sér lánaheimild upp á jafnvirði 800 milljarða íslenskra króna vegna lausafjárskorts vegna mikilla vanskila viðskiptavina fyrirtækisins. Fjárfestingabankinn Merril Lynch sagði á dögunum að vegna þeirra slæmu stöðu sem fyrirtækið sé í sé mikil hætta á því að fyrirtækið verði gjaldþrota. Það hefur þegar hafið hagræðingu í rekstri, meðal annars með uppsögnum á starfsfólki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×