Viðskipti erlent

Nokkrir sitja um hlut Nasdaq í LSE

Breska kauphöllin í Lundúnum. Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn Nasdaq á 31 prósents hlut í breska markaðnum. Margir hafa áhuga á að kaupa hlutinn.
Breska kauphöllin í Lundúnum. Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn Nasdaq á 31 prósents hlut í breska markaðnum. Margir hafa áhuga á að kaupa hlutinn. Mynd/AFP

Nokkrar af helstu kauphöllum Evrópu og asískur fjárfestingasjóður hafa kannað möguleikann á því að kaupa hlut bandaríska hlutabréfamarkaðarins Nasdaq í kauphöllinni í Lundúnum í Bretlandi (LSE). Nasdaq á 31 prósents hlut í LSE en hefur ekki ákveðið hvort helmingur hlutarins eða meira verði seldur. Á meðal hugsanlegra kaupenda er kauphöllin í Dubai.

Á meðal þeirra sem hafa viðrað áhuga á hlutnum eru þýska kauphöllin í Frankfurt, asíski fjárfestingasjóðurinn Temasek og kauphöllin í Dubai.

Kaupverð er talið hlaupa á um 797 milljónum punda, jafnvirði 104 milljarða íslenskra króna. Breska dagblaðið Sunday Times segir Temasek þegar hafa boðið 800 milljónir punda, rúma 104 milljarða króna.

Fjölmiðlar hafa ýjað að því að komin sé upp einkennileg staða fyrir Nasdaq hvað síðasttalda aðilann varðar en stjórnendur Nasdaq og kauphallarinnar í Dubai eiga þessa dagana í yfirtökubaráttu um norrænu kauphallarsamstæðuna OMX, sem rekur kauphallir víða á Norðurlöndum, þar á meðal hér, og í Eystrasaltsríkjunum. Salan á hlut Nasdaq í LSE mun einmitt vera tilkominn að hluta til að fjármagna kaupin og styrkja fjárhagslegar stoðir Nasdaq í baráttunni um OMX-samstæðuna.

Hvað sem því líður hefur hvorki verið ákveðið hver eða hverjir kaupi hlutinn í LSE af Nasdaq né hvort hann falli í skaut einum aðila eða fleirum. Breska ríkisútvarpið bendir hins vegar á að kaupi einn aðili hlutinn verði sá hinn sami kominn í aðstöðu til að taka yfir allt hlutafé í LSE.

Nasdaq reyndi nokkrum sinnum í fyrra að kaupa LSE en mistókst. Í tilboðsferlinu safnaði kauphöllin hins vegar grimmt bréfum í LSE, sem markaðurinn hyggst nú koma í verð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×