Viðskipti erlent

Rauður dagur í Bandaríkjunum

Hús til sölu í Bandaríkjunum. Endursala á fasteignum hefur ekki verið með dræmara móti í Bandaríkjunum í fimm ár.
Hús til sölu í Bandaríkjunum. Endursala á fasteignum hefur ekki verið með dræmara móti í Bandaríkjunum í fimm ár. Mynd/AFP

Gengi hlutabréfa lækkaði nokkuð við lokun fjármálamarkaða í Bandaríkjunum í dag eftir að gögn sýndu að endursala á fasteignum dróst saman í síðasta mánuði. Salan hefur minnkað jafnt og þétt síðan á vordögum þegar samdráttar á fasteignalánamarkaði vestra varð fyrst vart og hefur salan ekki verið með dræmara móti í fimm ár. Þá hefur fasteignaverð sömuleiðis lækkað síðastliðna 12 mánuði.

Að sögn fréttaveitunnar Bloomberg hafa ekki verið fleiri fasteignir á söluskrá í Bandaríkjunum í sextán ár. Samdráttarins gætir hins vegar ekki þvert um landið því salan jókst í NA-hluta Bandaríkjanna á meðan lítil hreyfing var á fasteignum í suðurhluta landsins.

Hlutabréfamarkaðurinn var á niðurleið strax við opnun markaða vestanhafs í dag og endaði á rauðu. Nasdaq-vísitalan lækkaði um 0,6 prósent, Dow Jones-vísitalan um 0,42 prósent og S&P-vísitalan um 0,85 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×