Fótbolti

Dunga: Adriano þarf að þroskast

Elvar Geir Magnússon skrifar
Adriano er úti í kuldanum hjá Inter.
Adriano er úti í kuldanum hjá Inter.

Carlos Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu, hefur biðlað því til brasilíska sóknarmannsins Adriano að hann fari beinu brautina og finni sitt gamla form. Adriano hefur verið að berjast við vandræði í einkalífinu og hafa þau haft áhrif á frammistöðu hans á vellinum.

Adriano leikur með Inter á Ítalíu og er hann ansi aftarlega í goggunarröðinni hjá liðinu. Dunga hefur þó enn trú á kappanum. „Ef Adriano þroskast og verður eins og fullorðinn maður þá mun hann vinna sæti sitt hjá Inter til baka," sagði Dunga í viðtali við brasilískt dagblað.

„Hann er á krossgötum, ekki bara á ferli sínum heldur einnig í einkalífinu. Ef hann hættir að líta á sjálfan sig sem fórnarlamb og reynir að gleyma fortíðinni þá getur hann byrjað upp á nýtt."

Þrátt fyrir að Adriano sé ekki að finna sig með félagsliði sínu þá á hann að baki frábæran árangur í landsleikjum, 25 mörk í 37 leikjum síðan hann lék sinn fyrsta leik gegn Kólumbíu í nóvember árið 2000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×