Erlent

Heimilt að rífa norskt skip

Óli Tynes skrifar
Blue Lady.
Blue Lady.

Hæstiréttur Indlands leyfði í dag að byrjað yrði að rífa gamalt norskt skemmtiferðaskip sem hefur legið við akkeri undan strönd landsins í rúmt ár. Umhverfissamtök hafa barist gegn því að leyfið yrði veitt á þeim forsendum að í skipinu séu yfir 900 tonn af eitruðum úrgangi. Það skapi mikla hættu fyrir verkamenn í slippnum þar sem rífa á skipið.

Norska skipið Blue Lady er 46 þúsund tonn og því mikið verk að rífa það. Talsvert er um að úrelt skip séu send til niðurrifs í þróunarlöndum. Grænfriðungar segja að þúsundir verkamanna í löndum eins og Indlandi, Pakistan og Kína hafi dáið undanfarna tvo áratugi vegna eitrunar eða slysa við að rífa skipin.

Í úrskurði hæstaréttar Indlands segir að strangt eftirlit skuli haft með verkinu, og eiturefni fjarlægð áður en byrjað verður að rífa Blue Lady.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×