Erlent

Þáttastjóri gladdist yfir árásinni á Bandaríkin

Óli Tynes skrifar
Jens Blauenfeldt; gladdist yfir hryðjuverkaárás.
Jens Blauenfeldt; gladdist yfir hryðjuverkaárás.

Þáttastjórnandi við danska ríkissjónvarpið hefur valdið nokkru uppnámi með því að viðurkenna að hann hefði glaðst yfir hryðjuverkaárásinni á Bandaríkin. Ganrýnendur ríkissjónvarpsins segja að þetta sé enn eitt dæmið um að þar ráði rauði liturinn ríkjum. Fleiri starfsmenn sjónvarpsins þykja hafa sýnt sinn rétta lit á undanförnum mánuðum.

Jens Blauenfeldt stjórnaði í gær þætti þar sem þess var minnst  að sex ár voru liðin frá hryðjuverkaárásinni. Hann sagði þar meðal annars; "Það er dálítið vandræðalegt að viðurkenna það, en ég hugsaði með mér; Hey þetta eru ameríkanarnir. Nú fá þeir skell. Þeir hafa virkilega gott af því."

Blauenfeldt hefur fengið áminningu vegna þessara ummæla, og beðið afsökunar á þeim. Gagnrýnendur danska ríkissjónvarpsins taka þó lítið mark á þeirri afsökunarbeiðni.

Þeir minna á að í síðustu viku varð sjálfur sjónvarpsstjórinn að biðjast afsökunar á því að hann mætti á rokktónleika í bol frá Ungdómshúsinu umdeilda. Milljónatjón var unnið í óeirðum eftir að húsið var rifið í sumar.

Það er einnig minnt á að 3. janúar síðastliðinn sagði þáttastjórnandinn Peter Kjær að hann vonaði að Fidel Castro yrði eilífur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×