Erlent

Minn tími kemur aftur -Putin

Óli Tynes skrifar
Vladimir Putin ætlar ekki að sleppa stjórntaumunum í Rússlandi.
Vladimir Putin ætlar ekki að sleppa stjórntaumunum í Rússlandi. MYND/AP

Vladimir Putin, forseti Rússlands sagði í dag að hann útilokaði ekki að hann myndi sækjast eftir forsetaembættinu á nýjan leik árið 2012. Samkvæmt stjórnarskrá landsins má forseti ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil. Síðara kjörtímabili Putins lýkur á næsta ári. Hinsvegar mega menn bjóða sig fram á nýjan leik eftir eitt kjörtímabil utan embættis.

Ariel Kohen, stjórnmálasérfræðingur við Heritage Foundation í Washington ræddi við Putin sem sagði meðal annars að hann ætlaði sér að halda áfram að hafa áhrif í Rússlandi. "Herra Putin ætlar ekki að hverfa inn í þokuna," sagði Kohen.

Fréttaskýrendur segja að Putin hafi sýnt klókindi með því að skipa hinn óþekkta Viktor Zubkov í embætti forsætisráðherra og opna honum með því leið að forsetaembættinu. Zubkov verður orðinn sjötugur árið 2012 og samkvæmt stjórnarskránni mega menn ekki bjóða sig fram þegar þeim aldri er náð.

Zubkov er mjög hollur Putin og því tilvalinn til þess að halda forsetastólnum volgum til 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×