Stefán Gíslason, nýskipaður fyrirliði Bröndby, segir að grannaslagur liðsins við FCK á morgun verði gríðarlega þýðingarmikill.
„Þetta verður eins og bikarúrslitaleikur," sagði Stefán í samtali við danska blaðið BT. „Forsaga liðanna í keppninni skiptir engu máli. Þetta snýst allt um hvernig dagsformið á liðunum verður."
Staða liðanna í dönsku úrvalsdeildinni er ólík en FCK er í næstefsta sæti deildarinnar en Bröndby í því næstneðsta. Níu umferðum er lokið í deildinni og hefur Bröndby aðeins unnið einn leik til þessa og skorað fimm mörk.
Bröndby hefur fengið á sig átján mörk, næstflest í deildinni.
„Þetta verður mikill baráttuleikur. Kannski ekki markamikill en það verður hart barist. Og við ætlum okkur ekkert annað en þrjú stig," sagði Stefán.