Fótbolti

Ítalir brjálaðir út í Dida

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dida er ekki vinsælasti maðurinn á Ítalíu í dag.
Dida er ekki vinsælasti maðurinn á Ítalíu í dag. Nordic Photos / AFP

Knattspyrnuáhugamenn á Ítalíu eru alls ekki ánægðir með leikræna tilburði brasilíska markvarðarins Dida.

Nokkrum sekúndum eftir að Glasgow Celtic skoraði annað mark sitt gegn Evrópumeisturum AC Milan í Meistaradeildinni í vikunni hljóp stuðningsmaður Celtic inn á völlinn.

Hann hljóp upp að Dida og rétt virtist snerta hann. Dida byrjaði að elta hann en ákvað svo að láta sig falla í grasið. Hann var svo borinn af velli er hann hélt kælipoka við andlitið sitt.

Myndband af atvikinu má sjá hér

Á heimasíðu Gazzetta dello Sport tóku meira en 60 þúsund manns þátt í atkvæðagreiðslu um hvort bæði Milan og UEFA ættu að refsa Dida fyrir athæfið. 83 prósent voru sammála því.

Dagblöð á Ítalíu hafa látið Dida heyra það og segja að atvikið hafi verið táknrænt fyrir kvöldið.

„Það er eins og að Dida hafi verið sleginn af sjálfum Mike Tyson,“ sagði einn blaðamaðurinn.

Carlo Ancelotti, stjóri AC Milan, tók að hluta til undir gagnrýnina.

„Hann ýkti þetta en þessi maður hefði ekki átt að hlaupa inn á völlinn.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×