Nánast ekkert getur komið í veg fyrir að Íslendingaliðið Brann hampi norska meistaratitlinum í ár. Brann vann Lyn 3-1 í kvöld og er með níu stiga forskot á toppi deildarinnar þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir.
Það er því ljóst að Brann þarf aðeins eitt stig í viðbót til að gulltryggja sér titilinn. Stabæk er í öðru sæti deildarinnar og á enn tölfræðilega möguleika en varla raunhæfa. Þá er markatala Stabæk talsvert verri en hjá Brann en þar munar tíu mörkum.
Kristján Örn Sigurðsson og Ólafur Örn Bjarnason léku allan leikinn í kvöld í vörn Brann en Ármann Smári Björnsson var hinsvegar á meðal varamanna og kom ekki við sögu að þessu sinni. Hjá Lyn lék Indriði Sigurðsson allan leikinn.
Brann skoraði fyrsta markið í leiknum í fyrri hálfleik en fjórum mínútum fyrir leikslok jafnaði Lyn. Í viðbótartíma skoraði Azar Karadas tvívegis fyrir Brann og tryggði þeim þrjú stig.