Erlent

Íslensk börn hætt komin í dönskum skólabruna

Óli Tynes skrifar
Þykkan reykjarmökk lagði yfir Sönderberg þegar skólinn brann.
Þykkan reykjarmökk lagði yfir Sönderberg þegar skólinn brann.

Íslensk börn voru meðal nemenda í dönskum barnaskóla sem voru hætt komin þegar skólinn brann til kaldra kola í gær. Faðir íslenskrar telpu segir að hún hafi orðið að forða sér í svo miklum fllýti að hún hafi þurft að skilja eftir utanyfirföt sín og skólatösku, sem brann eins og annað.

Eldurinn breiddist út með ógnarhraða í Dybböl skólanum sem er í bænum Sönderborg, skammt frá landamærunum að Þýskalandi. Sönderberg er 30 þúsund manna bær og þar búa um 300 íslendingar. Eldurinn kviknaði vegna rafmagnsbilunar í rofum í þaki hússins. Skólinn varð alelda á skammri stundu og var slökkviliðinu í Sönderberg sendur liðsauki frá tíu næstu nágrannabæjum.

Meðal barna í skólanum er Alma María Ólafsdóttir, sem er á tíunda ári. Ólafur Baldursson, faðir hennar bjó í Sönderborg í mörg ár en er nú búsettur hér á landi. Ólafur segir að hratt og vel hafi gengið að rýma skólann, en yfir 100 nemendur þurftu að forða sér þaðan í skyndingu. Engum hafi orðið meint af, en börnin náttúrlega verið slegin, eins og hann sjálfur og aðrir foreldrar.

Yfir 100 slökkviliðsmenn börðist við eldinn. Þeim tókst að verja næstu hús, en af skólanum eru brunarústirnar einar eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×