Garðar Gunnlaugsson skoraði tvö mörk í 4-0 sigri Norrköping á Örgryte í gær og varð þar með aftur markahæsti leikmaður sænsku 1. deildarinnar.
Þar með tók hann fram úr Johan Patriksson, leikmanni Sundsvall, sem hefur skorað sextán mörk á tímabilinu en Garðar sautján.
„Það er mér mikilvægt að verða markahæsti leikmaður deildarinnar. Slíkt skiptir alla framherja máli," sagði Garðar í samtali við Folkbladet í Norrköping.
Liðið hefur þegar tryggt sér meistaratitilinn í deildinni sem og sæti í úrvalsdeildinni að ári. Tvær umferðir eru eftir og á Norrköping eftir að mæta Jönköping og Degerfors.
„Ég held að eitt mark í viðbót ætti að gulltryggja þetta."