Fótbolti

Vågner: Mjög hissa á landsliðsþjálfaranum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Haraldur Freyr á hér í höggi við sóknarmanninn Benjamin Auer í U-21 landsleik Íslands og Þýskalands á Akranesi árið 2003.
Haraldur Freyr á hér í höggi við sóknarmanninn Benjamin Auer í U-21 landsleik Íslands og Þýskalands á Akranesi árið 2003. Nordic Photos / Bongarts

Yfirmaður knattspyrnumála hjá Álasundi skilur ekki af hverju Haraldur Freyr Guðmundsson hefur ekki hlotið náð fyrir augum Eyjólfs Sverrissonar landsliðsþjálfara.

Haraldur Freyr hefur spilað með Álasundi frá 2005 og hefur ekki spilað landsleik síðan hann kom inn á í æfingaleik Íslands og Suður-Afríku á 80. mínútu haustið 2005.

Það er reyndar aðeins annar landsleikur hans á ferlinum. Hann kom inn á fyrir Pétur Marteinsson í leik Íslands og Ungverjalands fyrr á árinu í undankeppni HM 2006.

„Ég er mjög hissa á þessu," sagði Vågner í samtali við Vísi um málið. „Ég veit að Ísland á mikið af góðum varnarmönnum en Halli hefur bætt sig gríðarlega mikið á þessu tímabili. Sérstaklega hefur hann verið mjög sterkur á síðustu 3-4 mánuðum. Í leiknum gegn Brann á laugardaginn, sem við unnum 2-1, var hann án nokkurs vafa besti maður vallarins."

„Ég vona auðvitað að landsliðsþjálfari Íslands fylgist með honum. Halli hefur lagt mjög hart að sér, hann er metnaðargjarn og duglegur. Ég vona að í framtíðinni fái hann tækifæri til að sanna sig með landsliðinu."

Haraldur framlengdi samning sinn við Álasund síðastliðið haust. „Mér virðist að hann sé mjög ánægður hjá félaginu enda hefur hann átt frábært tímabil."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×