Jón Arnór Stefánsson átti góðan leik þegar lið hans, Lottomatica Roma, tapaði á útivelli fyrir Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í körfubolta.
Real Madrid vann leikinn, 89-83 og voru með forystu allan leikinn. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 29-17 en Rómverjar söxuðu jafnt og þétt á forskotið í næstu tveimur leikhlutum. Jón Arnór skoraði svo þriggja stiga körfu seint í þriðja leikhluta og jafnaði metin, 62-62.
Staðan þegar fjórði leikhluti hófst var 66-64 og voru heimamenn einfaldlega sterkari á lokasprettinum.
Jón Arnór spilaði í 22 mínútur í leiknum, skoraði fjórtán stig og hitti úr fimm af sjö skotum sínum utan af velli. Hann nýtti einnig bæði vítaskotin sín.
Lottomatica Roma hefur tapað báðum leikjum sínum til þessa í riðlinum en andstæðingarnir hafa verið gríðarlega sterkir.