Fótbolti

Jóhannes: Mér var harkalega refsað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhannes Þór Harðarson á landsliðsæfingu.
Jóhannes Þór Harðarson á landsliðsæfingu. Mynd/E. Stefán

Jóhannes Þór Harðarson segir að sér hafi verið ansi harkalega refsað af fyrrverandi þjálfara Start, Benny Lennartsson, nú í haust.

Start féll um deild nú þegar norsku úrvalsdeildinni lauk í haust og var tap liðsins fyrir Strömsgodset síðla í september ansi dýrkeypt. Sigur í þeim leik hefði farið langt með að tryggja liðinu að minnsta kosti sæti í umspilskeppninni.

Jóhannes Þór kom inn á sem varamaður í leiknum í stöðunni 2-1 fyrir Start. Strömsgotset jafnaði á 85. mínútu og skoraði svo sigurmark leiksins úr vítaspyrnu sem dæmd var á Jóhannes Þór í uppbótartíma.

Eftir leikinn sagði Jóhannes í samtali við norska fjölmiðla að þetta hafi verið kolrangur dómur.

Lennartsen refsaði svo Jóhannesi í kjölfarið með því að kippa honum alfarið úr leikmannhópi liðsins. Hann lék ekkert meira með Start á leiktíðinni.

Í dag birtist viðtal við Lennartsen þar sem hann segir að vítið á móti Strömsgodset hafi verið liðinu gríðarlega dýrkeypt.

„Ég vil enn meina í dag að þetta hafi aldrei átt að vera víti," sagði Jóhannes um málið í dag. „En hvað mig varðar var mér harkalega refsað í kjölfarið. Þetta gerði það að verkum að ég fékk ekkert meira að spila á tímabilinu."

Hann viðurkennir að kannski hafi hann ekki staðið sig nægilega vel í leiknum. „En ég átti skilið að vera allavega í leikmannahópnum í síðustu umferðunum," sagði hann.

Jóhannes Þór á eitt ár eftir af samningi sínum við Start og ætlar að spila með liðinu í 1. deildinni, þó svo að önnur lið hafi sett sig í samband við hann.

„Ég hef engar áætlanir um annað en að klára minn samning hjá Start."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×