Segja má að sannkallað NBA æði gangi nú yfir Kína. Yfir 100 milljónir manna sáu leik Milwaukee og Chicago í landinu um síðustu helgi og þeir verða væntanlega enn fleiri annað kvöld.
Körfuboltinn er gríðarlega vinsæll í Kína og ber höfuð og herðar yfir aðrar íþróttagreinar þegar kemur að sjónvarpsáhorfi. Það er ekki síst risanum Yao Ming hjá Houston að þakka, en hann er í guðatölu í heimalandinu.
Nýjasta æðið í Kína er svo í kring um nýliðann Yi Jianlian hjá Milwaukee og því má gera ráð fyrir að öll áhorfsmet verði slegin annað kvöld þegar Houston tekur á móti Milwaukee.
Leikurinn verður sendur út beint á 16 sjónvarpsstöðvum í Kína og verða 14 fjölmiðlamenn frá landinu sendir til Houston til að fjalla um leikinn. 30% alls áhorfs á NBA í gegn um heimasíðu NBA deildarinnar kemur frá Kína og þar er ört vaxandi markaður fyrir íþróttina.
Nýráðinn yfirmaður NBA-mála í Kína Tim Chen, segir þetta aðeins vera byrjunina og reiknar með að áhorf í Kína eigi eftir að sexfaldast á næstu þremur árum. Deildin er í dag með samninga við 51 sjónvarpsstöð í landinu um útsendingar frá NBA boltanum.