Viðskipti erlent

John Thain í forstjórastól Merrill Lynch

John Thain, forstjóri bandarísk-evrópsku kauphallarsamstæðunnar NYSE Euronext, en talið er líklegt að hann verði nefndur til sögunnar sem næsti forstjóri Merrill Lynch í kvöld.
John Thain, forstjóri bandarísk-evrópsku kauphallarsamstæðunnar NYSE Euronext, en talið er líklegt að hann verði nefndur til sögunnar sem næsti forstjóri Merrill Lynch í kvöld. Mynd/AFP

Talsverðar líkur eru taldar á því að John Thain, forstjóri NYSE Euronext, hinnar tiltölulega nýsameinuðu kauphallar New York í Bandaríkjunum og samevrópsku kauphallarsamstæðunnar Euronext, verði veittur forstjórastóllinn hjá bandaríska fjárfestingabankanum Merrill Lynch.

Bandaríska dagblaðið New York Post segir líkur á að tilkynning þessa efnis liggi fyrir um níuleytið, eða á svipuðum tíma og viðskiptadeginum lýkur í Bandaríkjunum í kvöld. 

Merrill Lynch kom afar illa út úr fjármálakrísunni sem riðið hefur yfir alþjóðlega fjármálamarkaði upp á síðkastið og tapaði jafnvirði 140 milljörðum íslenskra króna á þriðja ársfjórðungi. Þetta er fyrsta tap bankans í sex ár sem að mestu leyti er tilkomið vegna afskrifta í tengslum við fasteignalán bankans.

Slæm afkoma bankans leiddi til þess að Stan O'Neal, fyrrum forstjóri bankans, varð að taka poka sinn í lok síðasta mánaðar.

Gangi þetta eftir þykir Duncan Niederauer, næstráðandi Thains, líklegasti eftirmaðurinn í forstjórastól NYSE Euronext, að sögn New York Post.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×