Fótbolti

Veigar Páll: Býst við að byrja inn á

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll í leik með norska liðinu Stabæk.
Veigar Páll í leik með norska liðinu Stabæk. Mynd/Scanpix

Veigar Páll Gunnarsson hefur jafnað sig fyllilega á meiðslum sínum og segist búast við því að fá tækifæri í byrjunarliði landsliðsins gegn Dönum í næstu viku.

„Það verður spennandi að sjá hvernig þetta verður nú þegar nýr landsliðsþjálfari er tekinn við," sagði Veigar Páll við Vísi en Ólafur Jóhannesson tók nýverið við starfi Eyjólfs Sverrissonar sem landsliðsþjálfari.

Undir stjórn Eyjólfs fékk Veigar Páll fá tækifæri, sérstaklega í síðustu leikjunum sem hann stýrði.

„Ég geri mér auðvitað vonir um að fá meiri tækifæri, jafnvel að byrja inn á. Það væri ekkert ólíklegt miðað við hvernig ég hef staðið mig með Stabæk á tímabilinu. Ég býst eiginlega við því," sagði hann.

Veigar Páll meiddist á landsliðsæfingu fyrir leikinn gegn Lettum í síðasta mánuði og gat því ekki leikið með liðinu, hvorki gegn Lettlandi né Liechtenstein. Óttast var að um fremur alvarleg hnémeiðsli væri að ræða og að hann þyrfti jafnvel að fara í uppskurð vegna þeirra.

„Þetta lagaðist eiginlega af sjálfu sér," sagði hann. „Það voru teknar myndir af hnénu heima en það sást ekkert á þeim. Það er þó ekki enn fullvitað hvað var nákvæmlega að en því hefur verið haldið fram að ég væri með klemmda taug. Það var þó engu að síður nóg að ég gæti ekki spilað í landsleikjunum."

Veigar spilaði þó með Stabæk í fyrsta leik eftir landsleikjafríið en gat þá aðeins leikið í 60 mínútur. „Ég tók mér svo góða hvíld eftir þann leik og síðan þá hef ég ekki fundið fyrir þessu aftur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×