Fótbolti

Marel hættur hjá Molde

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marel Baldvinsson er á leiðinni aftur til Íslands.
Marel Baldvinsson er á leiðinni aftur til Íslands. Mynd/Hörður

Marel Baldvinsson og Molde hafa samið um starfslok Marels hjá félaginu, ári áður en samningur hans átti að renna út.

Þetta er staðfest á heimasíðu Molde í dag en félagið vann sér í haust sæti í norsku úrvalsdeildinni eftir árs fjarveru. Marel kom til liðsins árið 2006 og hefur spilað 25 deildarleiki síðan þá.

Marel komst í fréttirnar í Noregi þegar hann sagði í viðtali við Fréttablaðið að Molde væri draugabær og að hann myndi taka fyrstu flugvél heim væri sá kostur fyrir hendi. Viðtalið vakti mikla athygli í Noregi og fjallaði Verdens Gang til að mynda ítarlega um málið.

Hann lék með Breiðabliki áður en hann fór til Noregs og ef hann heldur áfram að spila verður að teljast líklegast að hann fari aftur í Kópavoginn.

Marel hefur hins vegar átt við þrálát meiðsli í hné að stríða og segir í viðtali við fótbolta.net að hann íhugi nú hvort hann eigi að leggja skóna á hilluna þrátt fyrir að vera einungis 26 ára gamall. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×