Viðskipti erlent

Forstjóri E-Trade hættur

Mitchell H. Caplan, forstjóri fjármála- og verðbréfafyrirtækisins E-Trade, sagði upp störfum í dag og tekur uppsögnin þegar gildi. Fyrirtækið hefur átt í gríðarlegum vanda en það þurfti líkt og fleiri bandarískar fjármálastofnanir að afskrifa 197 milljónir dala, jafnvirði rúmra 12 milljarða króna, vegna bókfærðs taps á þriðja ársfjórðungi. Fyrirtækið tryggði sér 2,4 milljarða dala fjármögnun í dag til að bæta eiginfjárstöðuna.

Þegar E-Trade greindi frá tapinu í enda september og horfum á lélegu ári féllu bréf þess um heil þrjátíu prósent og vöruðu margir við því að fyrirtækið gæti orðið gjaldþrota.

Fjármálaskýrendur hafa hins vegar bent á, að lítil hætta sé á slíku þar sem eignastaða fyrirtækisins sé afar sterk. Gengið hefur jafnað sig að mestu síðan þá.

Þegar gengið hrundi sendi Landsbankinn frá sér tilkynningu þess efnis að E*Trade, sem viðskiptavinir bankans nýta sér til alþjóðlegra verðbréfaviðskipta, væri í samstafi við danskan banka, dótturfélag bandaríska verðbréfafyrirtækisins, en væri sjálfstæður og lyti dönskum lögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×