Innlent

Herjólfur úr slipp í dag

Guðjón Helgason skrifar

Viðgerðir á Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi eru á undan áætlun og verður henni siglt úr slipp í Hafnarfirði síðdegis í dag. Áætlunarferðir hefjast svo aftur á hádegi á morgun.

Leki kom upp í skrúfubúnaði Vestmannaeyjaferjunnar og henni siglt til viðgerða í Hafnarfirði í fyrradag. Þær munu á undan áætlun og ferjan fer úr slipp síðdegis. Áætlunaferðir hefjast svo aftur á hádegi á morgun. Á meðan hefur aðeins verið hægt að fljúga milli lands og Eyja en Selfoss - skip Eimskipafélagsins - kom þó með vörur til Eyja í morgun sem ella hefðu komið með Herjólfi.

Samgöngur milli lands og Eyja voru til umræðu á Alþingi í gær. Árni Johnsen lýsti ástandinu að vegasambandslaust væri við eina stærstu verstöð landsins. Flug væri með höppum og glöppum til Vestmannaeyja, vegna þess að ekki væri gengið frá samningum um flugumferðarstjórn á Vestmannaeyjaflugvelli, þangað sem ekki mætti fljúga eftir hálf sjö á kvöldin. Árni sagði Vestmannaeyinga sitja uppi með verkfælni Vegagerðarinnar og slæleg vinnubrögð hennar í þessu máli undanfarin ár.

Fleiri þingmenn kjördæmisins tóku undir áhyggjur Árna af stöðu mála en Kristján Möller, samgönguráðherra, sagði unnið í því. Vitað væri um útboð í fluginu - ferðum fjölgað um sumarið. Síðan væri það nýja ferjan. Drög að útboðslýsingu lægju fyrir og vonandi hægt að auglýsa nú í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×