Viðskipti erlent

Græn jól í Bandaríkjunum

Gengi hlutabréfa hefur almennt hækkað í Bandaríkjunum á þessum síðasta degi fyrir jól.
Gengi hlutabréfa hefur almennt hækkað í Bandaríkjunum á þessum síðasta degi fyrir jól. Mynd/AFP

Gengi hlutabréfa hefur almennt hækkað í bandarískum kauphöllum í dag eftir að bandaríski fjárfestingabankinn Merrill Lynch sagði útlit fyrir að hann myndi fá allt að fimm milljarða innspýtingu frá asíska fjárfestingasjóðinum Temasek í Síngapúr.

Fjármögnunin þykir afar jákvæð mótvægisaðgerð eftir afskriftir bankans upp á síðkastið. Aðrir bankar í Bandaríkjunum hafa gripið til svipaðra aðgerða og er skemmst að minnast þess að fjárfestingasjóður í eigu stjórnvalda í Abu Dhabí keypti hlut í Citigroup fyrir 7,5 milljarða dala á dögunum.

Þá hækkaði gengi tæknifyrirtækja sömuleiðis vestanhafs eftir að afkoma hátæknifyrirtækisins Research in Motion, sem framleiðir Blackberry-símtæki, rúmlega tvöfaldaðist á milli ára, sem var langt umfram væntingar. Stjórnendur fyrirtækisins segja hins vegar að dragist einkaneysla saman á fjórðungnum geti svo farið að afkoma fyrirtækisins standist ekki væntingar.

Það sem af er dags hefur Dow Jones-hlutabréfavísitalan hækkað um 1,27 prósent og Nasdaq-vísitalan um 1,36 prósent.

Af einstökum félögum hækkaði gengi flugrekstrarfélagsins AMR um 0,59 prósent og stendur gengið í 15,49 dölum á hlut sem er með lægsta gengi félagsins. Decode hefur hækkað hins vegar lækkað um 0,83 prósent og standa þau í 3,58 dölum á hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×