„Mývatnssveitin er í uppáhaldi," segir Lilja Pálsdóttir, útibússtjóri í Glitni í Þarabakka, en hún er mikil ferðakona þegar kemur að því að ferðast um landið.
„Einu sinni á ári er allavega farið í Þórsmörk," nefnir Lilja og bætir því við að í síðustu Þórsmerkurferð var gengið upp á Valahnúk. „Í Þórsmerkurferðunum er tíminn nýttur til að fara í léttar gönguferðir um svæðið enda alltaf eitthvað nýtt að sjá."
Nýlega uppgötvaði Lilja náttúruperluna Þakgil, sem er á Höfðabrekkuafrétti á milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands. „Við hjónin fórum þangað í fyrrasumar og gengum upp á jökulinn fyrir ofan Þakgil." Á þessu svæði eru margar áhugaverðar gönguleiðir og mikil veðursæld.
Í sumar ætlar stórfjölskyldan að dvelja saman í sumarhúsi í Danmörku í viku og eyða þar tíma í bænum Højby. „Sumarfríið í ár verður að vanda einnig notað til ferðalaga um landið," segir Lilja og nefnir að auðvitað þegar ferðast sé um Ísland með tjaldvagninn og allar græjur sé stefnan tekin á þann stað á landinu þar sem góða veðrið er.
Það má segja að það líði ekki sá dagur á árinu að Lilja fari ekki út að ganga. „Enski springer-hundurinn okkar heldur mér efnið," segir hún, en hundinn þarf að viðra á hverjum degi, í hálftíma til þrjú korter í senn.