Erlent

Dálítið svakaleg mistök

Óli Tynes skrifar
Grafíkskiltið svakalega.
Grafíkskiltið svakalega.

Danska sjónvarpsstöðin TV2 nældi sér líklega í gær í mestu mistök sem gerð verða í sjónvarpsútsendingum þar í landi á þessu ári.

Fréttamaðurinn Jesper Steinmetz var þá í beinni útsendingu frá New York að segja frá því nýjasta á peningamarkaðinum. Allt í einu kom borði neðst yfir skerminn með nýjustu fréttum.

Á borðanum stóð: „Fogh biður bandarísku þjóðina skilyrðislausrar afsökunar á tilræðinu við Bush." Þar var auðvitað vísað til Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana.

Dönum brá nokkuð í brún því enginn þeirra minntist þess að hafa reynt að kála forseta Bandaríkjanna. Skýringin var líka önnur.

Í grafíkdeild sjónvarpsstöðvarinnar voru menn eitthvað að prófa tölvur og bjuggu til þetta grafikskilti sem sýnishorn. Það átti auðvitað aldrei að fara í loftið.

Andrúmsloftið á grafíkdeild TV2 mun hafa verið venju fremur lágstemmt í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×