Erlent

Af hverju grunaði engan neitt í Austur­ríki?

Óli Tynes skrifar

Josef Fritzl átti sjálfur fjölbýlishúsið í bænum Amstetten, sem telur 23 þúsund íbúa. Hann bjó ásamt fjölskyldu sinni í einni íbúðinni en leigði ættingjum sínum hinar.

Austurríkismenn velta því nú fyrir sér hvernig í ósköpunum hann gat geymt Elísabetu dóttur sína í kjallaranum og eignast með henni sjö börn án þess að nokkurn grunaði.

Það gerir málið enn undarlegra að Fritzl skyldi geta tekið þrjú barnanna sem hann var bæði faðir og afi að, og alið þau upp á heimili sínu og eiginkonu sinnar. Og engan grunaði neitt.

Þó skráði Fritzl öll börnin hjá viðeigandi yfirvöldum. Skýringin sem hann gaf var sú að þau hefðu fundið börnin á tröppum hússins árið 1993, 1994 og 1997. Að minnsta kosti einu barnanna mun hafa fylgt miði sem Fritzl lét Elísabetu skrifa.

Skýring hans á hvarfi hennar var sú að hún hefði hlaupist að heiman og gengið í sértrúarsöfnuð.

Mörgum Austurríkismönnum finnst að einhverjar aðvörunarbjöllur hefðu átt að hringja einhversstaðar, eftir því sem afabörnunum fjölgaði hjá Fritzl fjölskyldunni.

Eitt barnanna dó og Fritzl brenndi lík þess í kyndiklefa hússins. Hin sex eru á aldrinum fimm til nítján ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×