Fótbolti

Sigurður þurfti lögreglufylgd af æfingu

Sigurður Jónsson þjálfari Djurgarden í Svíþjóð fékk lögreglufylgd af æfingu í gær eftir að reiðir stuðningsmenn liðsins ruddust inn á svæðið.

Stuðningsmenn Djurgarden eru orðnir langþreyttir á slæmu gengi liðsins sem vann síðast sigur þann 28. apríl síðastliðinn. Liðið hefur ekki unnið síðustu sex leiki í deildinni og eftir markalaust jafntefli gegn eistneska liðinu Flora í Evrópukeppninni í vikunni fengu stuðningsmenn nóg.

Fimmtíu þeirra allra hörðustu ruddu sér leið inn á æfingasvæði liðsins í gær þar sem fram fór opin æfing liðsins. Þeir fóru lengra en þeir höfðu leyfi til, framjá öryggisverði og hindrunum og beindu spjótum sínum að eiganda liðsins Bosse Andersson og Sigurði þjálfara. Lögregla var kölluð til og fylgdist með stuðningsmönnunum þar til æfingunni lauk.

Að henni lokinni gaf Sigurður sig á tal við stuðningsmennina og baðst afsökunar á gengi liðsins. Hann útskýrði hvað hefði farið úrskeiðis í síðasta leik og sagði að hann og liðið væru að reyna að lagfæra það sem aflaga hefur farið. Að svo búnu fylgdi lögreglan Sigurði af svæðinu.

Sigurður sagði í samtali við dagllaðið Expressen að hann hefði ekki orðið umræddra stuðningsmanna var meðan á æfingunni stóð en bætti við að hann skilji gremju þeirra.

Djurgarden er í níunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar, fjórtán stigum á eftir toppliði Kalmar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×