Fótbolti

Fá lífstíðarbann fyrir nýnasistaáróður (myndband)

Bullurnar voru færðar í fangelsi eftir uppákomuna
Bullurnar voru færðar í fangelsi eftir uppákomuna NordicPhotos/GettyImages

Átta menn voru í dag dæmdir í lífstíðarbann frá leikjum Werder Bremen eftir að þeir drógu fram nýnasistafána á útileik liðsins gegn Bochum í síðustu viku.

Mennirnir voru handteknir en ekki er talið að þeir séu stuðningsmenn Bremen. Það voru reyndar raunverulegir stuðningsmenn Bremen sem brugðust við þegar þeir hugðust breiða úr fána sínum og létu lögreglu vita.

Smelltu hér til að sjá myndband af atvikinu.

Þar má sjá stuðningsmenn gefa áttmenningunum kaldar kveðjur þegar lögregla leiðir þá burt úr stúkunni.

Werder Bremen hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að svona hegðun verði ekki liðin hjá félaginu og að brugðist verði við henni af hörku. Einnig var stuðningsmönnunum sem skárust í leikinn hrósað fyrir viðbrögð sín gegn bullunum.

Félagið er nú í viðræðum við þýska knattspyrnusambandið með það fyrir augum að láta bannið yfir áttmenningunum gilda á landsvísu til að útiloka að þeir geti breitt út áróður sinn á knattspyrnuvöllum í framtíðinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×