Viðskipti innlent

Hljóp 530 km í maí

Börkur Árnason
undirbýr sig nú af krafti fyrir 166 kílómetra hlaup í kringum Mont Blanc sem fer fram í lok ágúst.
Mynd/ragnheiður guðmundsdóttir
Börkur Árnason undirbýr sig nú af krafti fyrir 166 kílómetra hlaup í kringum Mont Blanc sem fer fram í lok ágúst. Mynd/ragnheiður guðmundsdóttir

„Ég hljóp 530 kílómetra í maí, sem er met hjá mér, Ég reikna með að hlaupa 400 kílómetra á mánuði fram að Mont Blanc-hlaupinu í lok ágúst,“ segir Börkur Árnason, sjóðsstjóri hjá Íslenskum verðbréfum á Akureyri. Hann býr sig nú undir þátttöku í einu stærsta og erfiðasta fjallahlaupi í Evrópu, en hann tók einnig þátt í því í fyrra.

,,Hlaupið í fyrra var mikil upplifun enda frábært útsýni og mikil stemning í kringum þetta hlaup. Þetta var vissulega erfitt, mikill hiti var á tímabili sem gerði hlaupurum erfitt fyrir og sá ég þann kost vænstan að henda mér niður á dýnu í hálftíma eftir 25 klukkustundir á ferðinni til að safna smá orku fyrir „endasprettinn“ sem tók bara tíu tíma. En það var ólýsanlega gaman að koma í mark snemma á sunnudagsmorgun í Chamonix eftir að hafa farið þessa löngu og erfiðu leið,“ segir Börkur.

Hlaupaleiðin liggur í kringum fjallið Mont Blanc, í gegnum Frakkland, Sviss og Ítalíu. Hlaupið er yfir fjöldann allan af fjöllum og fjallaskörðum og þar af eru fjögur fjöll sem eru í 2.500 metra hæð. Hlaupið er alls 166 kílómetrar að lengd.

Hann segist fyrst hafa byrjað að hlaupa af einhverju marki árið 2002. Yfir­leitt æfir hann ekki mikið í lok árs en byrjar aftur markvisst í kringum áramót. ,,Ég lagði meiri áherslu á styrktar­æfingar í vetur en áður,“ segir Börkur.

Börkur tók einnig þátt í fyrsta 100 kílómetra hlaupinu sem haldið var hérlendis í byrjun mánaðarins, sem og Mývatnsmaraþoni vikuna áður. Hann stefnir að því að taka þátt í Laugavegs­maraþoni og Jökulsárhlaupi nú í júlí en reiknar ekki með að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni sem er haldið vikuna fyrir Mont Blanc-hlaupið. Hugsanlega bætist við eitt 180 km hlaup í Bretlandi seinna í haust. Þess má til gamans geta að Börkur tók ,,létt skokk“ um liðna helgi og hljóp Fimmvörðuhálsinn á innan við þremur klukkustundum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×