Vilhjálmur krónprins Bretlands gæti þurft að eltast við sjóræningja á Karíbahafi þegar hann hefur þjálfun sína á freigátunni HMS Iron Duke á næstunni.
Það gæti líka farið svo að freigátan yrði kölluð til aðstoðar ef fellibylur eða önnur óáran heimsækir það hafsvæði.
Vilhjálmur sem er 25 ára gamall fetar þarna í fótspor föður síns, frænda og afa sem allir voru í breska flotanum.
Vilhjálmur hefur einnig verið í þjálfun hjá landher og flugher, enda er verið að búa hann undir að verða æðsti yfirmaður breska heraflans. Þótt það sé raunar liðin tíð að konungar sendi heri í stríð.
Yngri bróðir Vilhjálms, Harry var á dögunum kallaður heim frá Afganistan, þar sem hann gegndi herþjónustu.
Það var eftir að fjölmiðlar kjöftuðu frá því að hann væri í landinu.