Viðskipti erlent

Óttast hugsanlega efnahagskreppu

Mynd/AP

Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum tóku snarpa dýfu á mörkuðum í dag eftir að í ljós kom að atvinnuleysi jókst um 0,3 prósentustig þar í landi í síðasta mánuði nýliðins árs og mælist nú 5,0 prósent. Þetta er nokkuð meira atvinnuleysi en greiningaraðilar spáðu en þeir telja niðurstöðuna vísbendingu um hugsanlega harkalega lendingu bandaríska hagkerfisins og jafnvel að efnahagskreppa sé yfirvofandi.

Aukið atvinnuleysi samfara auknum vanskilum á fasteignalánamarkaði vestanhafs og fremur lágu gengi bandaríkjadals gagnvart evru getur verið vísbending um að nú fari að draga úr einkaneyslu þar í landi. Einkaneysla er stór liður í bandarískum hagvísum og því getur samdráttur þar skilað sér í samdrætti á hagvexti. Slíkt getur svo aftur skilað sér í minni innflutningi og smitað þannig út frá sér til viðskiptalanda Bandaríkjanna.

Afleiðingarnar skiluðu sér hratt á hlutabréfamarkaði. Nasdaq-vísitalan, sem samanstendur af fyrirtækjum í tæknigeiranum, féll um heil 3,8 prósent. Vísitalan hefur fallið um 5,6 prósent á þessum tveimur viðskiptadögum ársins sem er versta upphafið á hlutabréfamarkaði vestanhafs síðan árið 1971, að sögn Bloomberg-fréttaveitunnar.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan féll um tvö prósent á sama tíma. Vísitalan hefur ekki byrjað árið með jafn mikilli lækkun síðan árið 1904, samkvæmt Bloomberg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×