Viktor Bjarki Arnarsson mun á næstu dögum æfa með sænska úrvalsdeildarliðinu GAIS sem hefur tvo Íslendinga þegar á mála hjá sér.
Liðið leikur æfingaleik við Bröndby í vikunni og mun Viktor Bjarki væntanlega fá tækifæri til að sýna sig í þeim leik.
Þeir Jóhann Birnir Guðmundsson og Eyjólfur Héðinsson eru þegar á mála hjá félaginu. Eyjólfur og Viktor léku saman í Fylki sumarið 2005.
Viktor var kjörinn besti leikmaður Íslandsmótsins árið 2006 og var í kjölfarið seldur frá Víkingi til Lilleström í Noregi. Hann meiddist á undirbúningstímabilinu fyrir tæpu ári síðan og náði sér ekki aftur fyrr en seint um sumarið þar sem það tók um tvo mánuði að greina meiðslin rétt.
Hann var svo í leikmannahópi liðsins undir lok tímabilsins en fékk aldrei tækifæri hjá Tom Nordlie, þjálfara liðsins.