Fótbolti

Áhættufjárfestir fjármagnaði kaupin á Sverri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sverrir Garðarsson, leikmaður GIF Sundsvall.
Sverrir Garðarsson, leikmaður GIF Sundsvall. Mynd/E. Stefán
Fjárfestingarfyrirtækið AB Norrlandsinvest fjármagnaði að stærstum hluta kaup GIF Sundsvall á Sverri Garðarssyni en fyrirtækið sérhæfir sig í áhættufjárfestingum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem GIF Sundsvall gaf út í dag en Sverrir gekk til liðs við félagið í upphafi vikunnar en þangað kom hann frá FH.

Til stóð að Sverrir yrði kynntur sem leikmaður Sundsvall á föstudaginn en óvissa í kringum skatta- og virðisaukamál frestuðu viðskiptunum fram yfir helgi. FH mun hafa fengið meira en 20 milljónir fyrir Sverri.

„Kaupin á Sverri hefðu ekki verið möguleg án aðkomu Norrlandsinvest," sagði Torbjörn Wiklund, framkvæmdarstjóri GIF Sundsvall.

Í sömu tilkynningu kemur fram að kaupin á Sverri séu ein af þeim stærstu í sögu GIF Sundsvall.

„Þetta eru stór viðskipti hvað okkur varðar, það er ekki spurning," sagði Lars Aspling, framkvæmdarstjóri AB Norrlandsinvest. „En þetta mátti ekki vera hvaða leikmaður sem er. Þetta varð að vera leikmaður sem var tilbúinn að hjálpa GIF jafn mikið og eigin ferli. Hann á ekki að líta á það þannig að hann muni ljúka ferlinum hjá félaginu. Þetta á að vera „win-win-situation" fyrir alla aðila."

Hann vildi ekki segja nákvæmlega hversu stóran hluta af Sverri fjárfestingarfyrirtækið ætti. „Ég ætla ekki að nefna neinar tölur en stóran hluta."

Aspling var spurður hvort að félagið myndi koma að fleiri leikmannakaupum GIF Sundsvall sagði hann að það væri ólíklegt í þessum félagaskiptaglugga sem lokar í lok marsmánaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×